föstudagur, mars 10, 2006

oj barasta

Eyddi dágóðum tíma við að hreinsa út heil 10 subbu spam komment við síðasta póst.
Kipptist í gírinn þegar mér barst tilkynning í tölvupósti um að einhver hefði kommentað afar mikið um rassa á þessari síðu.
Fjandinn, hugsar kannski einhver (ef einhver er enn að fylgjast með blogginu). En það verður að hafa það. Rassa má finna allstaðar, óþarfi að auglýsa þá á útlensku í kommentum.

Skrapp í kvöld sem önnur kvöld í ljósmyndaleiðangur. Tunglið ætlaði ekki að láta sjá sig, en loksins kom það í ljós og ég þurfti að beita sjálfa mig hörðu við að koma mér heim.

bridgeway to the moon

Tók mig til rétt fyrir áramót og byrjaði á nýju verkefni.
Mynd á dag.
Verkefnið er strembið, oft erfitt að rífa sig upp og finna eitthvað myndefni sem er áhugavert, láta sér detta einhverja vitleysu í hug og framkvæma hana.
Ég hef í hyggju að halda þessu áfram eins lengi og ég held út. Hef haldið út núna mun lengur en ég bjóst við.
Mæli með að kíkka við þarna, þetta er orðið hálfgert myndablogg hjá mér. Frúnni orða vant, aldrei þessu nær.

Úr sveitinni er allt það besta að frétta. Hlutirnir ganga fyrir sig eins og þeir eiga að gera. Húsfreyjan sér að vísu fram á nokkrar vikur þar sem hún þarf að stinga sig upp á hvern dag, hálfger dreifbýlisþyrnirós með mission.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

jámm...jámm

Þetta kemur allt saman.

Er búin að vera hryllilega löt við að blogga í guð-má-vita-hvað-lengi.
Meira að gerast á ljósmyndasíðunni minni á Flickr (klikka á myndina til að komast þangað).

Er að taka lífinu með eins mikillri ró og hægt er þessa dagana. Allt komið á fullt fyrir aðventu- og jólaundirbúning í vinnunni. Og ég með sauma innan á maganum sem mig klæjar svo í. Dreymir um að klóra mér í naflanum innanfrá með grófasta píanóstreng sem fyrirfinnst.

Hér er hún Vatnsenda Rósa.
Skipaði frænku minni í gúmmístígvél af húsbóndanum og lét hana vaða út í sjó upp að hnjám vafða inn í akrýldúk.
Allt með góðum keppnisanda að sjálfsögðu, enda var þemað Draugar.
ghost in the lake 2

þriðjudagur, október 11, 2005

opna

Icelandic amateur photographers yearbook 2005

Opnan mín í Árbók íslenskra áhugaljósmyndara 2005.

Bókina er hægt að panta á netinu ef einhver hefur áhuga
Ljósár 2005 - panta

föstudagur, september 30, 2005

haustlitir

Eftir hríð, slyddu og norðanrok kom loks milt og fallegt kvöld.
Ég brá mér í Lystigarðinn....ja.....brá mér...sko...Garðinum er lokað frekar snemma en ég ákvað að skreppa í smá myndatökuleiðangur.
Lagði bílnum á FSA stæðinu og klifraði varlega yfir hliðið sunnan megin í garðinum.
Varla búin að rétta úr mér eftir klifrið þegar að mér kemur maður í úlpu. Mér fannst því best að rifja upp gamla og góða siði og bauð honum góða kvöldið, sagðist ætla að taka myndir, hvort ég mætti það ekki.
Hann horfði á mig eins og ég væri klikkuð.
Spyr svo hvort að garðurinn sé lokaður, hafði verið á kvöldgöngu og ákveðið að fara í gegnum garðinn.
Lokaður eða opinn, hliðið austan megin var opið og á milli trjánna héngu ljósakeðjur sem lýstu upp haustlaufin sem þöktu stígana.
Ég gleymdi mér í langan tíma við að ganga um og skoða haustlitina, smella af nokkrum myndum og njóta þess að hvorki rigndi né snjóaði.
Spurning hversu lengi þetta endist....
falling gold

miðvikudagur, september 28, 2005

innkoma

"Lokaðu hurðinni á eftir þér, vinur/vina"

"Viltu loka hurðinni"

Ég segi þessar setningar oftar en ég hef tölu á á hverjum degi.

Eru börn í dag orðin of vön sjálfvirkum hurðum? Eða búa þau svo vel að hafa þjóna og bryta sem loka á eftir þeim?

þriðjudagur, september 20, 2005

snap snap

Langur mánudagur að baki, nemendurnir misryðgaðir eða smurðir, allt eftir því hvernig á það er litið.
Skrapp og tók nokkrar myndir af honum Orra Harðar fyrir nýju plötuna hans. Hafði mjög gaman af því að taka myndir af lifandi viðfangsefni, ansi skemmtileg tilbreyting frá ryðguðum traktorum og fjallshlíðum.
Kvöldinu eytt í að velja úr, henda, laga, skera og setja upp myndirnar. Margar bara þrusu góðar og ég vona að módelinu finnist slíkt hið sama.

sunnudagur, september 18, 2005

bækur og gaul

Overworld : The Life and Times of a Reluctant Spy eftir Larry J. Kolb

Life is Huge! eftir Susan Jeffers

Field Guide to the Apocalypse : Movie Survival Skills for the End of the World eftir Meghann Marco

The Experts' Guide to 100 Things Everyone Should Know How to Do eftir Samönthu Ettus

Smá hluti af hrúgunni á náttborðinu.
Svo er hrúga með ljósmyndabókum, Bókum um hvernig á að kenna laglausum og taktlausum tónlist og eitthvað af bókum um hvernig heilinn í okkur virkar.

Ekki beint eins og lestrarlisti einnar manneskju.

Var að enda við að hlusta á Lífið í hægagangi með Gráa Davíð. Stórfínt barasta og Davíð virðist vaxa ágætlega.
Ekki hægt að segja það sama um nýjasta garnagaul Sigur Rósar. Ég gerði heiðarlega tilraun til að smyrja eyrun að innan með þessum disk, þar sem hann átti að vera undursamlegur. Eitt skipti var nóg.
Ég er ekki þessi týpa sem hlustar á plötur 25 sinnum svona djöst in keis að þær verði góðar við þrítugustu hlustun.
Það bara virkar ekki svoleiðis á þessu heimili.


Mér barst pakki frá adorama.com á föstudag. Næstum eins og jólin væru komin.
Annars segir The Field Guide to the Apocalypse:
How to recognise a dreamworld: All things you ever wanted come true.
Mig langaði í gleiðlinsu og ég keypti/fékk hana.
Go dreamworld GO! Nú þarf ég bara að fá mér nýtt baðker, flatskjás sjónvarp, NASA rúm .........
Site Meter